What a Wonderful world

Friday, December 30, 2005

enn eitt árið !!!



Það góða við áramót er að þau gefa manni tækifæri á að líta til baka og endurmeta stöðuna, ég gróf mig inní hugarheim manns ...
(tek það fram að ég er er ekki að tala um sjálfan mig, áhyggjufullir fjölsk. meðlimir hafa verið að hringja))

Jæja enn eitt árið farið og ég er sama djöfulsins letibykkjan. Ég stend í stað hvað allt varðar nema fatastærðir , sú tala hleypur uppí móti móð og másandi enda heilsunni hrakað með hverju kílóinu. Ég hef ekki nennt að fara í naflaskoðun um það hver ég er og hvert ég stefni, það gera bara tívolíbombur eins og Maggi Sceving sem alltaf vilja vera að bæta allt, ég hef ekki tíma í svoleiðis crap, ég þarf að vinna alvöru vinnu og hef ekki tíma í að liggja undir sæng með hitapúða og kakó að fletta sjálfshjálparbókum. Ef ég er ekki nógu góður fyrir fólk þá má það bara láta mig í friði. Ég tala stundum illa um annað fólk, en það er af því þetta fólk á það skilið, það er að haga sér eins og fífl og þegar ég tala um það hversu mikil fífl þau eru þá átta ég mig á því hvað ég er í raun ekta gaur, ja ekki er ég svo mikill aumingi að geta ekki haldið utan um fjölskyldu eða hangi með tilfinningar mínar utan á mér eins og blikkandi jólaskraut, þetta fólk getur bara sjálfu sér um kennt.
Þetta þýðir eflaust það að ég stend í stað, viðurkenni ekki það sem betur má fara hjá mér og færist því í engvar áttir, rætur mínar eru fastar. Þær eru fastar af endalausum afsökunum, það er alltaf hægt að finna afsökun fyrir öllu. Afsakanir og réttlætingar eru óvinir mínir sem hjálpa mér að skjóta rótum og vökva mig með fölsku sjálfsöryggi sem í raun er svo lygilegt að ég finn varla muninn, ég er hættur að sjá, ég er blindur af eigin lýgi, og það er enn verra að vita af því, ég segi við sjálfan mig : ég er ógeðslegur.

Fólkið í kringum mig er svo misjafnt, sumir taka þátt í að skjóta rótum, því þeim vantar einhvern með sér svo þeir einir dragist ekki afturúr en svo eru aðrir sem reyna að láta mig sjá. Þeir sem skamma mig og kalla mig aumingja og letingja vita það líklega ekki en þeir hjálpa líka við að festa mig því þegar ég er gerður minni en ég er svala ég frekar þorsta mínum í lyginni og hleyp undan þessum kröfum þeirra fullkomnu sem allt þykjast vita, fyrir mér er engin betri ástæða til þess að setja fyrir mig vopn og verjast en þegar ráðist er á mig, það meikar sens.
Verst eða best er í raun þegar einhver sem mér þykir vænt um talar við mig af virðingu og bendir mér á það góða í mér og sannfærir mig um að ég getir orðið betri manneskja, þá get ég ekki sett upp vopn eða logið, ég verð að berskjalda mig , það er gott af því það er satt en það er samt sárt að horfa af alvöru framan í manninn , sjálfan mig , , sem bara tekur en ekkert gefur og loksins sjá að það gerir sjálfum mér verstan óleik af öllum. Gjafir nefnilega endurspegla sig, aðrir sækjast eftir nærveru þeirra er gefa og fólk sem gefur af sér fær það margfalt til baka, þetta fólk stráir glimmeri sem festist allsstaðar og finnst jafnvel mörgum dögum seinna í hárinu og undir sokkunum.

En hvernig getur maður gefið, ef maður finnur það ekki? Finnur ekki gjöfina.
Það er ekki hægt að finna löngun til þess að gefa af sér ef allt innra er í óreiðu, fólk hefur ekki gaman að því að bjóða öðrum í heimsókn með allt í drasli svo þar neyðist ég til þess að byrja. Annars get ég sett fyrir mig þá afsökun að ég hafi ekkert, sé þreyttur og ég hafi fengið of stóran skammt af mótlæti, óréttlæti sem afsaki það hver ég er.

Ég virðist hafa fundið áramótaheitið mitt.
Ég veit að ég þarf hjálp til þess, annars væri ég löngu búin að því.
Það skal vera mitt fyrsta skref á nýju ári í átt að meiri hamingju !
E.S
(enginn sérstakur)

Gleðilegt nýtt, innihaldsríkt ár !!!

Wednesday, December 28, 2005

Hvað er óheppni?

Óheppni er;
að reka ungbarnavöggu utan í bíllykil sem stendur út úr skráargatinu á bílhurðinni og brjóta þannig lykilinn í tvennt í skrárgatinu.(by the way,, eina lykilinn sem til er, þrátt fyrir ráðleggingar foreldra og tengdaforeldra að eiga auka lykla,,já við erum kærulausa fólkið)
Heppni; er að ná brotinu úr með beygðum plokkara og ömmu hárspennu (eftir góðann klukkutíma), líma lykilinn með tonnataki og geta keyrt niðrí umboð eftir nýjum lykli.
Óheppni er;
að þegar nýji lykillinn virkar ekki þá reynum við gamla lykilinn aftur og tonnatakið gefur sig, lykillinn brotnar aftur, nú í startaranum.
Heppni; náum að plokka bitann upp og nýji lykillinn loks virkar.

Þetta var gærkvöldið og morgunsárið í rokinu í boði Heklu hf.
p.s við héldum “kúlinu” allan tímann, þetta kemur BARA fyrir okkur...hehe

Bréfið sem fylgdi jólakortinu í ár

Dagur í jólaundirbúningi

Jæja jólin enn og aftur komin. Baugur ekki ennþá séð sér fært að kaupa af okkur jólin sem betur fer.
Þegar þetta bréf er skrifað er allt á fullu í jólaundirbúningi. Sigmar vaknar á tveggja stunda fresti “má ég kíkja í skóinn” kl tvö, fjögur og sex.. “það er ennþá nótt” kallar pabbinn. Það er auðvitað endalaust dimmt. Ristbandið á skónum gaf sig um leið og ég steig inn um dyrnar í vinnunni og ég festi það upp með bréfaklemmu. Ég hentist til inná bað til að reyna að mála mig og fann þá að veskið mitt var aðeins blautt, en það hafði legið á gólfinu í bílnum þar sem ég lagði það til að festa Clöru í bílstólinn. OK, the usual stuff... burstinn með augnskugga strýkur augnlokin og það verður blautt og yndælis jarðaberjalykt fylgir í kjölfarið (...umm sennilega hluti af jarðberjasvalanum sem ég sá kramin á bílgólfinu) , ég loka og opna..augnlokið klístrast upp og ég lít út fyrir að vera mjög hissa með augnlokin svona límd aftur. Með jarðaberjasvala á augunum og skóinn festan með bréfaklemmu hófst dagurinn hjá mér á annars mjög virðulegri skrifstofu Atorku Group. Eftir vinnu er hlaupið með Sigmar á fótboltaæfingu þar sem hann fer á kostum og tekur boltann af öllum, líka sínum samherjum af því hann nennir ekki að bíða eftir því að það sé gefið á hann og við förum svo heim að búa til jólapappír. Sigmar segir mér að hann ætli að verða listamaður og ætli sér að selja öllum listaverk nema mér, ég fái þau frítt því ég sé nú mamma hans og Clara segir mér að hún ætli að gefa pabba sínum bjór í jólagjöf. Jói Fel er í sjónvarpinu og Clara lætur hann heyra það ..
“pabbi er betri en Jói mamma”..
”já miklu betri” svarar mamman.
Clara sér símann á borðinu
“mamma má ég senda Unni.is”
“þú meinar senda Unni SMS”svarar mamman
“já.. (bros)
Sigmar spyr mig enn og aftur “mamma afhverju dóu risaeðlurnar út”
og enn og aftur get ég ekki svarað “förum á bókasafnið á morgun”
Í miklum spenningi er farið uppí rúm, glugginn opnaður uppá gátt svo jólasveinninn eigi greiðan aðgang að stórum kuldaskónum sem hafa verið fluttir í gluggakistuna með öllum jarðleifum er finnast í stórum drullupollum. Við förum með bænirnar og Clara spyr hvort að Guð sé strákur? Voðalega eru þessar spurningar orðnar erfiðar, ég svara “það þarf nú ekkert að vera, guð getur alveg eins verið stelpa” og með þeim hugleiðingum var dagurinn á enda.

Ég var ekki svo viss um hvað þetta jólabréf ætti að vera og ákvað því bara að segja ykkur frá einum degi hjá okkur í jólaundirbúningi. Í öllu því sem gengur á um jól, gjöfum, mat, fínum fötum og hvað það nú er þá eru samskiptin við okkar nánustu sem veita manni mesta ánægju. Um leið og ég minni sjálfa mig á langar mig að minna ykkur á sömuleiðis. Vöndum okkur í samskiptum við aðra, hugsum um þau orð sem við notum og berum virðingu fyrir öðrum þó við séum ekki alltaf sammála.
...og með þeim rjómakenndu orðum....Elsku fjölskylda og vinir, Gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Sjáumst vonandi um hátíðarnar eða sem fyrst á nýju ári.
Jólakveðja, Berglind, Siggi, Sigmar Snær og Clara,

Monday, December 19, 2005

Út í óvissuna !

Verð að segja ykkur frá óvissuferðinni sem ég lenti í á föstudaginn. Pálmi bróðir hringdi og bað mig og Sigga að taka okkur frí í vinnu eftir hád. á föstudag. Við komum heim til hans 12:15, þar sem beið svaka bíll fyrir utan og bílstjóri sat og beið. Janika kærasta Pálma var jafn spennt og við Siggi, vissum ekkert. Pálmi bauð okkur uppá voða fínt kampavín í eldhúsinu, það var skálað og svo lagt af stað út í bíl. Í þessum líka svaða bíl var svo drukkið enn meira kampavín..mmm..já svo vorum komin ..að þyrluþjónustunni..og engin annar en Jón SPAÐI tók á móti okkur sem er víst gæinn sem er brjálæðingurinn í James Bond myndinni sem tekin var hér og hefur verið eftirsóttur í bíómyndir vegna hæfileika sinna á þyrlu... já og við inn í tækið.. dísess hvað það er geiðveikt að vera í þyrlu, hann tók nokkur stunt atriði, lét þyrluna falla, sveigði og beigði eins og í rússibana og við áttum í basli með að halda kampavíninu í glösunum. Svo var stoppað á yndislega fallegum Langjökli og stigið út, skoðað útsýnið og það var bara bilað !! (afsakið lýsingarorðin. Það var ekkert slökkt á þyrlunni , bara allt á fullu og þyrlunni var lagt bara nánast á brúnina á klakanum og ég get svarið það ég sá það fyrir mér... þyrluna renna niður og við föst á jöklinum í marga sólarhringa, en það gerðist ekki (sennilega búin að horfa á of margar bíómyndir). SVo var farið aftur inní þyrlu og fengið sér jólahlaðborð, sem Siggi kom með, jólasíld, pate...hamborgarahrygg með brúnuðum kartöflum ,sósu og rauðkáli.....creme brulé og úrval annara rétta..+ fallegasta útsýni sem við öll höfðum haft á jólahlaðborði áður ,,for sure !!!.. Það var meira hvítvín , svo þyrlan þurfti að taka tvö pissustopp(bara fyndið).
Allur tími sólar var nýttur og svo tekin stefnan aftur til Reykjavíkur, þetta var frábær upplifun og sannaðist enn og aftur að Ísland er fallegast í heimi ;)
Takk Pálmi fyrir okkur !!!

Thursday, December 15, 2005

ANNÁLL 2005


HUGSAÐ TIL BAKA....

JANÚAR


Stress fór illa með Íslendinga í Janúar, þegar visa reikningurinn kom inn um lúgur landsmanna.
CLARA VARÐ ÞRIGGJA ÁRA 12.JANÚAR

FEBRÚAR


í FEBRÚAR fannst fólk í Bandaríkjunum sem enn veit ekki af getnaðarvörnum, voru að eignast sitt 16. barn.

SIGMAR SNÆR VARÐ FIMM ÁRA 3. FEBRÚAR

MARS


SÁÁ fékk ekki þann styrk frá ríkinu sem þeir höfðu vonast eftir, mikið bakslag fyrir reksturinn.
Siggi varð þrítugur og Bella byrjaði að vinna hjá Atorku Group.

APRÍL


Siggi lét tattúera á sig uppskrift fyrir keppni með landsliðinu

MAÍ



Börnin fóru í myndatökur og mamman varð þrítug

JÚNÍ


Frændi hans sigga var kosinn liðugasti maður Evrópu í Júní.

JÚLÍ


Fjölskyldan fór a LOs Akureyri í júlí og sleikti sólina

ÁGÚST



Fjölskyldan flutti á Daggarvelli um verslunarmannahelgi og hjónaleysin gengu upp að altarinu 27.ágúst.

SEPTEMBER


Köttur fannst í Kjallara verksmiðjunnar Te og Kaffi , búin að lifa á kaffi í sjö mánuði.

OKTÓBER


Kvennafrídagurinn var áberandi í Október

NÓVEMBER


Í nóvember var hætt sölu Parkódíns í apótekum.

DESEMBER

Wednesday, December 07, 2005

Jólastress- bless bless.......



Eins fáránlega og það hljómar þá er til eitthvað sem kallast jólaSTRESS. Fyrir nokkra afslappaða, helga og yndslega daga jóla þar sem við finnum svo mikin frið þá er eins og við þurfum að hlaupa í ófrið í 23 daga áður svo hægt sé að hafa þessa hina örfáu daga svona “fullkomna”. Í kasti erum við oft að hendast til að gera ALLT sem þarf að gera, með arma eins og kolkrabbar og augu á hnakkanum og þessir dagar eru einfaldlega “pain in the ass”. Í búðunum er allt vitlaust að gera, fólk fyrir aftan mann er með innkaupagrind uppí rassinum á manni, öll jólaljósin gera mann blindann svo maður getur ekki ákveðið hvað maður á að kaupa enda er enginn peningur til því allir seðlar hafa farið til styrktar þeirra allra sem hringt hafa og bankað uppá í nóvember og desember (er nú samt ekkert á sjá eftir því).
Einhver fróður segir “jólin koma þó maður baki ekki”og “jólin koma þó allt sé ekki tandurhreint” en enginn trúi því og fólk hamast við að þrífa bakvið eldavélar með eyrnapinnum og fyllist samviskubiti ef það bakar ekki “sörurnar” hennar ömmu. Börnin verða undir í látunum og þeim finnst Kringlan vera stór ófreskja sem þau neita að ganga í ginið á og taka mótþróaköst við þessum hamagangi.
Sem betur fer vinnur leikskóli barna minna gegn þessu jólastressi og börnin fara í slökun og sitja heilmikið við kertaljós, kósý og rólegheit, leikskólinn hvetur foreldra einnig til að skilja börnin frekar eftir í leikskólanum frekar en að taka þau með í jólaverslun því það sé hrein og bein pína fyrir þau.
Með þessu orðum vil ég hvetja ykkur kæru vinir til að skoða ykkar undirbúning, því jólastress er ekki eitthvað sem við ætlum okkur heldur læðist inn og áður en við vitum af er þetta orðið erfitt og leiðinlegt. Jólaundirbúningur á að vera skemmtilegur og gefandi ekki leiðinda SKILDA. Það vill enginn fá jólkort frá þér ef þú hefur ekki nennt að skrifa það, það vill enginn fá jólagjöf sem var keypt í svo miklu stressi að börnin þín grétu í innkaupakerrunni með sárum ekka á meðan eða gjöf sem var svo dýr að þú ert með kvíðahnút í maganum yfir því.
You can do it...
Gangi ykkur vel í undibúningnum !!
p.s við náðum að flýja jólastress í fyrra og fórum uppí bústað með börnin eina helgi, gsm símar á OFF, ekkert sjónvarp, bara kerti, jólalög, bökuðum piparkökur og skrifuðum jólkort í ró og næði og það var æði.
.mæli með því..

Friday, December 02, 2005

True Story

Hér kemur saga sem vinkona mín sendi mér um daginn, hún er algjörlega dagsönn.
Þetta sendi hún mér;


Ég á ekkert blogg til þess að skrifa skemmtilegar sögur á þannig að ég ákvað að senda þér eina góða í pósti.

Það var á laugardagskvöldi, frekar seint og farið að dimma örlítið, við mútta stóðum við borðstofugluggann og vorum að spjalla saman. Við sjáum mann koma labbandi eftir gangstéttinni, hann kemur að hliðinu að húsinu okkar og vippar sér inn í garðinn. Hann er eitthvað að væflast þar dágóða stund en við sjáum ekki alveg hvað hann er að gera. En allt í einu sjáum við að hann er að labba út um hliðið aftur og heldur áfram eftir gangstéttinni, einsog að hann hefði bara tekið þarna smá krók á leið sinni. Daginn eftir var mjög gott veður og við erum úti í garði, ég og mútta erum að hjálpast að við að klippa runnana við gangstéttina. Í runnabeðinu þar sem maðurinn hafði verið að væflast kvöldinu áður sjáum við seðlaveski liggja við hliðina á þvílíkri “mannaskítsdellu”. Úps - manninum hafði þá greinilega orðið brátt í brók og vippað sér inn í garðinn hjá okkur og látið það vaða þar í runnabeðið en orðið svo óheppinn að missa seðlaveskið sitt við athöfnina. Mamma tekur upp seðlaveskið og sér að í því er slatti af peningum og skilrík mannsins sem var rúmlega sextugur. Við förum inn og mútta hringir í manninn og segir að hún hafi fundið eigur hans í garðinum okkar og hvort að hann vilji ekki koma og sækja þær. Maður var afskaplega ánægður með að hún skildi hringja og láta hann vita og sagðist verða kominn eftir hálftíma eða svo. Hálftíma seinna hringir dyrabjallan, mútta stekkur til dyra. Ég heyri að útidyrunum er lokað en mútta kemur ekki strax til baka. Ég fer út í borðstofugluggann og sé múttu standa yfir manninum þar sem að hann er með plastpoka að taka upp “delluna”. Hvað var í gangi þarna úti !!! Þegar mútta kemur inn spyr ég hana hvað hún hafi sagt við manninn. “Hva – spurði hvort að hann væri nú kominn til að hirða allar eigur sínar. Labbaði með honum út í garð, rétti honum plastpoka og benti honum á delluna. Þegar hann var búinn að því, rétti ég honum veskið. Það kemur sko enginn og drullar í minn garð.”

Thursday, December 01, 2005

Ein mesta snilld

Þvílíkur innblástur í morgunsárið !!!
Í stóra glerhúsinu sem ég vinn í er auglýsingaskrifstofan Gott fólk einhversstaðar á hæðunum fyrir ofan mig. Þeir hafa verið að auglýsa eftir góðu fólki í vinnu hjá sér og settu eina auglýsingu í blaðið. (ekkert merkilegt við það) En svo þegar ég mæti í morgun situr maður (drengur á mínum aldri) við útidyrahurðina, situr á stól sem hann hefur tekið með að heiman og heldur á kaffibolla og er að lesa bók í makindum sínum, öllu heldur Mýrina (eftir hinn fræga Arnald Indriða sem vann til verlauna um daginn),gaurinn var rauður á nefinu af kulda, samt með húfu og allar græjur. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að að hann sé að sníkja, selja eða safna fyrir einhvern málstað , já eða jafnvel mótmæla. Á meðan ég stend þarna föst í sporunum og er að reyna að ná þessu dregur hann fram jóla piparkökur og bíður mér mjög kurteisislega,... ég get ekki rifið mig frá þessu og fæ mér piparköku en hann er ekki en búin að reyna að selja mér neitt. Svo er mér litið á stærðarinnar spjald sem var við hliðiná honum og þar er hann búinn að stækka upp auglýsinguna frá Góðu fólki auglýsingastofu 1 og 1/2 meter á hæð og þar stendur eins og gengur og gerist í svona auglýsignum .. Gott fólk óskar eftir fólki..... nema hvað gaurinn er búinn að strika yfir "fólki" og skrifa MÉR ....til starfa hjá..... og ég stama uppúr mér.."hvað segirðu hvað ertu að gera....?" og hann segir mjög glaður "ég er að sækja um vinnu, mér hefur alltaf langað að vinna á auglýsingastofu"...þá leið næstum yfir mig af hrifningu.... Þvílík snilld..... Hvernig er hægt að sækja betur um vinnu á auglýsingastofu en svona?.. að auglýsa sjálfan sig svona snilldar vel... Þetta er innblástur vikunnar,, ég vona svo sannarlega að hann fái djobbið!!