What a Wonderful world

Friday, December 30, 2005

enn eitt árið !!!



Það góða við áramót er að þau gefa manni tækifæri á að líta til baka og endurmeta stöðuna, ég gróf mig inní hugarheim manns ...
(tek það fram að ég er er ekki að tala um sjálfan mig, áhyggjufullir fjölsk. meðlimir hafa verið að hringja))

Jæja enn eitt árið farið og ég er sama djöfulsins letibykkjan. Ég stend í stað hvað allt varðar nema fatastærðir , sú tala hleypur uppí móti móð og másandi enda heilsunni hrakað með hverju kílóinu. Ég hef ekki nennt að fara í naflaskoðun um það hver ég er og hvert ég stefni, það gera bara tívolíbombur eins og Maggi Sceving sem alltaf vilja vera að bæta allt, ég hef ekki tíma í svoleiðis crap, ég þarf að vinna alvöru vinnu og hef ekki tíma í að liggja undir sæng með hitapúða og kakó að fletta sjálfshjálparbókum. Ef ég er ekki nógu góður fyrir fólk þá má það bara láta mig í friði. Ég tala stundum illa um annað fólk, en það er af því þetta fólk á það skilið, það er að haga sér eins og fífl og þegar ég tala um það hversu mikil fífl þau eru þá átta ég mig á því hvað ég er í raun ekta gaur, ja ekki er ég svo mikill aumingi að geta ekki haldið utan um fjölskyldu eða hangi með tilfinningar mínar utan á mér eins og blikkandi jólaskraut, þetta fólk getur bara sjálfu sér um kennt.
Þetta þýðir eflaust það að ég stend í stað, viðurkenni ekki það sem betur má fara hjá mér og færist því í engvar áttir, rætur mínar eru fastar. Þær eru fastar af endalausum afsökunum, það er alltaf hægt að finna afsökun fyrir öllu. Afsakanir og réttlætingar eru óvinir mínir sem hjálpa mér að skjóta rótum og vökva mig með fölsku sjálfsöryggi sem í raun er svo lygilegt að ég finn varla muninn, ég er hættur að sjá, ég er blindur af eigin lýgi, og það er enn verra að vita af því, ég segi við sjálfan mig : ég er ógeðslegur.

Fólkið í kringum mig er svo misjafnt, sumir taka þátt í að skjóta rótum, því þeim vantar einhvern með sér svo þeir einir dragist ekki afturúr en svo eru aðrir sem reyna að láta mig sjá. Þeir sem skamma mig og kalla mig aumingja og letingja vita það líklega ekki en þeir hjálpa líka við að festa mig því þegar ég er gerður minni en ég er svala ég frekar þorsta mínum í lyginni og hleyp undan þessum kröfum þeirra fullkomnu sem allt þykjast vita, fyrir mér er engin betri ástæða til þess að setja fyrir mig vopn og verjast en þegar ráðist er á mig, það meikar sens.
Verst eða best er í raun þegar einhver sem mér þykir vænt um talar við mig af virðingu og bendir mér á það góða í mér og sannfærir mig um að ég getir orðið betri manneskja, þá get ég ekki sett upp vopn eða logið, ég verð að berskjalda mig , það er gott af því það er satt en það er samt sárt að horfa af alvöru framan í manninn , sjálfan mig , , sem bara tekur en ekkert gefur og loksins sjá að það gerir sjálfum mér verstan óleik af öllum. Gjafir nefnilega endurspegla sig, aðrir sækjast eftir nærveru þeirra er gefa og fólk sem gefur af sér fær það margfalt til baka, þetta fólk stráir glimmeri sem festist allsstaðar og finnst jafnvel mörgum dögum seinna í hárinu og undir sokkunum.

En hvernig getur maður gefið, ef maður finnur það ekki? Finnur ekki gjöfina.
Það er ekki hægt að finna löngun til þess að gefa af sér ef allt innra er í óreiðu, fólk hefur ekki gaman að því að bjóða öðrum í heimsókn með allt í drasli svo þar neyðist ég til þess að byrja. Annars get ég sett fyrir mig þá afsökun að ég hafi ekkert, sé þreyttur og ég hafi fengið of stóran skammt af mótlæti, óréttlæti sem afsaki það hver ég er.

Ég virðist hafa fundið áramótaheitið mitt.
Ég veit að ég þarf hjálp til þess, annars væri ég löngu búin að því.
Það skal vera mitt fyrsta skref á nýju ári í átt að meiri hamingju !
E.S
(enginn sérstakur)

Gleðilegt nýtt, innihaldsríkt ár !!!

4 Comments:

  • Já þetta fær mann til að stunda naflaskoðun í kvöld í stað þess að sprengja bæði maga og púður. En ég þakka þér skemmtileg skrif á árinu, einnig gömul og góð kynni á árum sem liðin eru. Kærar nýarskveðjur frá Helgu og fjöslkydlu í Eyjum

    By Anonymous Anonymous, at 10:09 AM  

  • Vonandi er þetta kafli í nýju bókinni þinni Berglind...hljómar vel...mig langaði a.m.k. að lesa meira og fylgjast með gæjanum í tiltekinni.

    Annars Gleðilegt ár elsku vinkona og takk fyrir pistlana, víst að glimerin frá þér sitja föst í hári margra.
    B.kv. Thelma.

    By Anonymous Anonymous, at 4:46 AM  

  • Mjög góður pistill hjá þér Berglind, alveg ótrúlegt hvað þú kemur öllu vel frá þér og færð mann til þess að hugsa... og hugsa. Takk fyrir allt knús og kossar og hlakka til að sjá ykkur :)

    By Anonymous Anonymous, at 5:40 AM  

  • Takk fyrir commentin stelpur :)

    By Blogger Bella Blogg, at 6:57 AM  

Post a Comment

<< Home