What a Wonderful world

Wednesday, December 28, 2005

Bréfið sem fylgdi jólakortinu í ár

Dagur í jólaundirbúningi

Jæja jólin enn og aftur komin. Baugur ekki ennþá séð sér fært að kaupa af okkur jólin sem betur fer.
Þegar þetta bréf er skrifað er allt á fullu í jólaundirbúningi. Sigmar vaknar á tveggja stunda fresti “má ég kíkja í skóinn” kl tvö, fjögur og sex.. “það er ennþá nótt” kallar pabbinn. Það er auðvitað endalaust dimmt. Ristbandið á skónum gaf sig um leið og ég steig inn um dyrnar í vinnunni og ég festi það upp með bréfaklemmu. Ég hentist til inná bað til að reyna að mála mig og fann þá að veskið mitt var aðeins blautt, en það hafði legið á gólfinu í bílnum þar sem ég lagði það til að festa Clöru í bílstólinn. OK, the usual stuff... burstinn með augnskugga strýkur augnlokin og það verður blautt og yndælis jarðaberjalykt fylgir í kjölfarið (...umm sennilega hluti af jarðberjasvalanum sem ég sá kramin á bílgólfinu) , ég loka og opna..augnlokið klístrast upp og ég lít út fyrir að vera mjög hissa með augnlokin svona límd aftur. Með jarðaberjasvala á augunum og skóinn festan með bréfaklemmu hófst dagurinn hjá mér á annars mjög virðulegri skrifstofu Atorku Group. Eftir vinnu er hlaupið með Sigmar á fótboltaæfingu þar sem hann fer á kostum og tekur boltann af öllum, líka sínum samherjum af því hann nennir ekki að bíða eftir því að það sé gefið á hann og við förum svo heim að búa til jólapappír. Sigmar segir mér að hann ætli að verða listamaður og ætli sér að selja öllum listaverk nema mér, ég fái þau frítt því ég sé nú mamma hans og Clara segir mér að hún ætli að gefa pabba sínum bjór í jólagjöf. Jói Fel er í sjónvarpinu og Clara lætur hann heyra það ..
“pabbi er betri en Jói mamma”..
”já miklu betri” svarar mamman.
Clara sér símann á borðinu
“mamma má ég senda Unni.is”
“þú meinar senda Unni SMS”svarar mamman
“já.. (bros)
Sigmar spyr mig enn og aftur “mamma afhverju dóu risaeðlurnar út”
og enn og aftur get ég ekki svarað “förum á bókasafnið á morgun”
Í miklum spenningi er farið uppí rúm, glugginn opnaður uppá gátt svo jólasveinninn eigi greiðan aðgang að stórum kuldaskónum sem hafa verið fluttir í gluggakistuna með öllum jarðleifum er finnast í stórum drullupollum. Við förum með bænirnar og Clara spyr hvort að Guð sé strákur? Voðalega eru þessar spurningar orðnar erfiðar, ég svara “það þarf nú ekkert að vera, guð getur alveg eins verið stelpa” og með þeim hugleiðingum var dagurinn á enda.

Ég var ekki svo viss um hvað þetta jólabréf ætti að vera og ákvað því bara að segja ykkur frá einum degi hjá okkur í jólaundirbúningi. Í öllu því sem gengur á um jól, gjöfum, mat, fínum fötum og hvað það nú er þá eru samskiptin við okkar nánustu sem veita manni mesta ánægju. Um leið og ég minni sjálfa mig á langar mig að minna ykkur á sömuleiðis. Vöndum okkur í samskiptum við aðra, hugsum um þau orð sem við notum og berum virðingu fyrir öðrum þó við séum ekki alltaf sammála.
...og með þeim rjómakenndu orðum....Elsku fjölskylda og vinir, Gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Sjáumst vonandi um hátíðarnar eða sem fyrst á nýju ári.
Jólakveðja, Berglind, Siggi, Sigmar Snær og Clara,

0 Comments:

Post a Comment

<< Home