What a Wonderful world

Monday, June 20, 2005

Ferð til EYJA

Jæja við fjölskyldan fórum heim til Eyja um helgina. Alltaf jafn yndislegt að koma þangað. Við flugum frá Bakka ásamt tveimur túristum sem mynduðu allt á leiðinni og þegar eyjan nálgaðist lá við að þeir færu út á væng að mynda svo mikill var æsingurinn, ég rétt náði að slengja myndavélatöskunnu um hálsin á gæjanum þegar hann var að fara að opna hurðina. Ég skil hann svo sem vel, eyjan í toppformi, græn og glæsileg. Heimaklettur þarna eins og myndalegur pabbi, og úr flugvél virðist þetta vera lítill, fljótandi teiknimyndabær sem getur ekki verið til í raunverulaikanum, með sínum litla golfvelli og marglitu bátunum í höfninni. Vá........bara eins og maður sé að fljúga á póstkort. Ég sá mig fyrir mér pota í bakið á túristanum og öskra til að yfirgnæfa lætin í rellunni “We where born here.........on this Island, we used to catch puffin as kids to save them and then later eat them and swing from the mountains in ropes to have fun” bara svona til að ná að rífa stoltið úr brjóstinu, láta vita að ég væri fædd og uppalin í þessum teiknimyndabæ. Enn sem betur fer lét ég það bara vera. Börnin fóru með pabba sínum á tuðruna í yndislegu veðri, kölluðu og sungu í hellinum, rótuðu í fjörunni eftir fjársjóð og skeljum og veiddu fisk á grillið. Krökkunum fannst salta sundlaugin skrítin og sundlaugin sem varð undir hrauni enn furðulegri. Margt að skoða og gaman að heimsækja alla í fjölskyldunni, fá vöfflur hjá ömmu og smíða víkingasverð útá bletti. Svo þegar átti að yfirgefa eyjuna þá vildi hún bara ekki sleppa takinu á okkur og yfir hana heltist þokuhjúpur. Teiknimyndabærinn var bara fastur inní stórum hjúp og engin flugvél viljug að fara með okkur yfir. Börnin alsæl, enda ekki tilbúin að yfirgefa sælureitinn. Nauðug fór ég á bryggjuna til að skríða um borð í skemmtiferðaskipið og labbaði þá inní annarsskonar ský, gúanó brækju dauðans. “Dauðans” eru ekki neinar ýkjur. Stelpa alin upp á þessum stað kippir sér nú ekki upp við peningalykt (sat nú stundum með pabba og Palla bróðir hans í kaffinu í gúanóinu og horfði á þá spila), en það sem lá í loftinu var eitthvað mikið dautt og myglað og setti skugga á annars frábæra ferð til eyja.
Ég fékk far með fjölskyldumeðlimum úr Þorlákshöfn og við hliðina á mér sat frændi minn sem hefur ekki búið í eyjum síðan fyrir gos, hann sagði “alveg sama hvað það er langt síðan ég bjó í eyjum finnst mér ég alltaf vera að koma heim þegar ég fer þangað”.

Eitt er víst eftir þessa ferð og það er ef börnin fengju að ráða værum við flutt til Eyja í gær.
.

8 Comments:

  • Berglind ekki fara líka til Eyja. Ég verð nú að hafa einhvern hérna hjá mér í bænum.
    Kv. Ingunn

    By Anonymous Anonymous, at 8:09 AM  

  • O já það er mjög gott að búa hér og ofsalega barnvænt. En Herjólfur er að gera mig GEÐVEIKA. Ekki bara djöfulsins ruggið og stungurnar heldur ógeðslega fýlan sem er þarna um borð o.. og svo þarf maður að borga dýrum dómum fyrir þennan úrelta 3 kl.stunda ferðamáta á tækniöld isss pisss.... Kv. Þórey pisst

    By Anonymous Anonymous, at 9:42 AM  

  • En nú er ég búin að ausa úr skálum reiði minnar (held að það sé sagt svona) og ætla að róa mig. En ég var niðri á bryggju með betri helmingnum og syninum að veiða þegar ég sá Sigga, Clöru, Sigmar, Berglindi og Simma sigla framhjá. Siggi stoppaði og bauð okkur með, mér fannst það voða sætt af honum og Friðbjörn var alveg hoppandi á bryggjunni að komast með en það verður að bíða betri tíma og björgunarvesta :) Kv. Þórey

    By Anonymous Anonymous, at 9:45 AM  

  • æ já það er alltaf gott að koma heim.. Sérstaklega þegar veðrið er alveg súper.. Maður fær alltaf heimþrá...kv. ragnajenny

    By Anonymous Anonymous, at 11:07 AM  

  • Úff, stundum langar mig svo að flytja aftur til Eyja!!!!! Merkilegt nokk líka, það eru svo margir fluttir aftur þangað sem ég þekki þó það sé alltaf verið að tala um fólksflóttann frá Eyjum... Er Jórunn að flytja aftur til Eyja???? Kv. Beta

    By Anonymous Anonymous, at 5:15 AM  

  • já Jórunn er að flytja og líklega Guðbjörg Helga líka....allir til Eyja ....

    By Blogger Bella Blogg, at 6:19 AM  

  • Guð en spennandi að fara að sjá fleiri vinaleg andlit hér á götunum

    By Anonymous Anonymous, at 10:39 AM  

  • Myndræn lýsing hjá þér Berglind, maður var kominn á staðinn.
    Takk fyrir síðast, þeir smökkuðust vel grilluðu þorskarnir þeirra Simma og Sigga. Þetta var frábær dagur. Já það er yndislegt að búa í eyjum, finnst það stundum vera forrréttindi. Stundum verður maður smeikur um að sú staða komi upp að geta ekki búið hér en það eru góðir tímar núna og virðist um næga atvinnu að fá sem stendur. Vantar bara göngin, eða hraðskreiðara skip. Helst göng.

    By Anonymous Anonymous, at 3:51 PM  

Post a Comment

<< Home