What a Wonderful world

Thursday, March 09, 2006

Fíflið á Business Class

Við fjölskyldan lögðum í ferð á laugardaginn til Denmark. Við á hoppi eins og vanalega og áttum ekkert að komast með, vélin uppbókuð. Mamma var með í ferð (eina með alvöru miða) og var orðin ansi sveitt yfir því að þurfa kanski að fara ein (fór að hlusta á tungumál fólksins sem var á leið í vélina og hafði áhyggjur af að hún gæti ekki hengt sig á neinn), ég skildi nú ekki það stress því hún talar betri dönsku en við. En við Siggi skildum það svo seinna þegar hún þekkti ekki töskuna sína á færibandinu og stakk alltaf uppá öðrum áttum en þeirri réttu eftir göngum flugvalla og lestastöðva. Mamma er bara ekki ferðafær.. punkur (sorry mamma). Svo var spennan í hámarki, og loka átti vélinni eftir nokkrar mín, þegar gellan segir að aðeins 3 sæti fáist og við litla fjölskyldan náttlega fjögur. Sigmar lá fölur og þreyttur á bekknum ekki búinn að jafna sig af flensu almennilega og upplitið á mömmu bara skelfing. Þetta tvennt olli því að kona steig fram og bauð okkur sætið sitt, hún tók flugfreyjusæti í staðin (líklega gömul flugfreyja eða eitthvað....) Og við hendumst síðust inní vél með veika soninn undir hendinni og dragandi Clöru sem hélt að við værum að fara til Akureyrar , mamma talaði tungum og hafði bara áhyggjur af þeldökka manninum sem komst þá ekki með (ekta hún).
Það vildi þannig til að þessi frábæra kona hafði átt sæti á Business Class , handapatið var mikið þegar við komum inn, enda vildi crew-ið fara koma vélinni af stað. Siggi segir “Berglind þú ferð á business class” ég skal vera með krakkana. Ég náttlega bara “hvað nei...ég skal vera með annað barnið..og..”
Flugfreyjan grípur inní “nei það verður líklega ekki hægt” og gefur mér smá afl innfyrir bláa tjaldið inní veröld hinna merkilegu. Ég með fullt fang af barnadrasli, úlpum og nefdropum hrökklast í lúxussætið inn fyrir merkilegan mann og sest á brúnina á sætinu. Þori ekki að koma mér vel fyrir, maðurinn lítur á mig og ég svara augnlitinu “ég á ekki að vera hérna sko...hmm”. Flugfreyjan kemur aftur og ég veifa “hvað segirðu á ég ekki að færa mig”
Hún brosir “börnin og maðurinn þinn hafa það fínt afturí, öll saman”
“Njóttu þess bara “ og svo blikkaði hún mig og rauðu varirnar glönsuðu (flottar þessar flugfreyjur). Ég vogaði mér þá að leggja frá mér allt draslið og setjast almennilega í hægindastólinn. Það var kampavín, dúnkoddi og matseðill, allt of mikið pláss fyrir fæturna og sérinnpakkað teppi. Róandi píanóundirspil, alvöru hnífapör og tauservétta, Mannlíf og öll blöð sem ég gat lesið.
Á meðan sátu maðurinn minn. móðir mín og börn hinum megin við tjaldið í fuglabjargi almúgans, með kramdar lappir, sveitta ókunnuga uppvið sig og plasthnífspör.
Ég kunni ekki á neitt, svo merkilegi maðurinn við hliðiná mér aðstoðaði mig eftir því sem ég bað hann, hvernig borðið virkaði og stóllinn. Komst svo að því að þessi maður var merkilegur arkitekt (hefði svo sem giskað á það, svo vel girtur af flauelisbuxum með innrömmuð augu í einhverjum svipmiklum design gleraugum), flugfreyjan dásamaði verk hans bak og fyrir, ég var að hugsa um að grípa frammí fyrir henni og segja henni að ég hafi gefið út bók og búið á Bahamas en lét það vera, ég var fíflið á Business Class.....

...þetta er orðið svo langt..framhald síðar...

Sigmar og Clara fara á hestbak á Sóley, einum af íslensku hestunum hjá Hildi og Jesper

2 Comments:

  • Mér fannst þú bara heppin. Siggi sveittur afturí með börnin og ég sé þig fyrir mér hvílandi höfuðið á dúnkoddanum hehehe með kampavín og píanótónlist. Ég hefði nú bara slengt því í andlitið á gaurnum að þú væriri sko Vestmannaeyingur, hefðir búið á Bahamas og gefið út bók geri aðrir betur og hana nú...
    En þetta lukkaðist fínt en hvernig fór heimferðin mér þætti gaman að vita það hehehe.

    By Anonymous Anonymous, at 9:10 AM  

  • Þetta var svooo skemmtilegur pistill... Ég var alveg spennt og urraði þegar ég sá að það kæmi framhald...;) Bíð spennt....

    By Anonymous Anonymous, at 1:24 AM  

Post a Comment

<< Home